Skólaslit

Skólaslit Tónlistarskóla Eyjafjarðar verða í Laugarborg, Eyjafjarðarsveit, þriðjudaginn 28. maí kl18:00. Fjölbreyttur tónlistarflutningur og afhending prófskírteina og vitnisburða.
Sjáumst sem flest 🙂

Vortónleikar og prófatíð

Ágætu nemendur, foreldrar, kennarar og sveitungar allir.

Það er mikið um að vera í Tónlistarskólanum þessa dagana, annir í vorverkunum hér eins og víða annars staðar.
Tónleikar eru fyrirferðarmiklir í næstu viku og eru flestir kennarar einnig með tónfundi með sínum nemendum. Sumir nemendur þreyta áfangapróf og eru þau flest á dagskrá í næstu viku.

Vortónleikar skólans eru sem hér segir:

13.maí vortónleikar í Hlíðarbæ kl.18:00

14.maí vortónleikar í Gamla skóla á Grenivík kl. 17:30

15.maí vortónleikar í Laugarborg kl.18:00

16.maí Vortónleikar söngdeildar í Laugarborg kl.20:00

Um aðra helgi  leikur Birna Eyfjörð Þorsteinsdóttir framhaldstónleika á píanó og Benedikt Stefánsson leikur mánudaginn 20.maí kl. 20.00 í Laugarborg burtfarartónleika á trompet.

Skólaslit, með tónleika ívafi,  verða síðan 28.maí kl.18:00 í Laugarborg.

Aðstandendur og velunnarar eru alltaf hjartanlega velkomnir á þessa tónleika og við hlökkum til að sjá ykkur.

Kærar kveðjur

Guðlaugur Viktorsson og Helga Kvam.

Innritun fyrir skólaárið 2019-2020


Innritun fyrir skólaárið 2019-2020 í Tónlistarskóla Eyjafjarðar hefst 24.apríl og lýkur 31.maí.

Allir skráðir nemendur Tónlistarskólans þurfa að endurnýja umsóknir sínar fyrir næsta vetur. Þeir sem hyggjast hefja nám í Tónlistarskólanum ættu að hafa hraðar hendur og tryggja sér pláss. Innritun er hér á heimasíðu skólans: tonlist.krummi.is

Skólinn býður uppá fjölbreytt námsframboð og kennarar tiltækir á flest algengustu hljóðfæri: Píanó, harmoniku, gítar, bassa, fiðlu, selló, flautu, klarinett, saxafón, málmblásturshlóðfæri (t.d. trompet, althorn og básúna),slagverk/trommur og söngnám. Það er samt vert að benda á að þetta er engan veginn tæmandi listi og hafi umsækjendur hug á námi á annað hljóðfæri þá eru góðir möguleikar á að við getum orðið við þeim óskum þar sem nálægðin við Tónlistarskólann á Akureyri gefur okkur ýmis tækfæri.

Tónlistarnám er hægt að hefja á öllum aldri og kennsluaðferðir fjölbreyttar. Við bendum á að í okkar hópi eru kennarar í Suzuki aðferðinni m.a. á fiðlu og selló. Sú aðferð hentar vel mjög ungum börnum, allt frá 4ra ára aldri en mikil og góð þátttaka foreldra er nauðsynleg.
Almennt hentar að hefja nám á blásturshljóðfæri þegar nemandinn hefur tekið fullorðins-framtennur (8-9 ára).

Hljóðfærakennsla grunnskólabarna fer fram á skólatíma nemenda á okkar starfsstöðum, Hrafnagili, Þelamörk og Grenivík. Við erum líka með starfsstöð í Lóni við Hrísalund og þangað beinum við gjarnan okkar nemendum á framhaldskólastigi og ef nemandi þarf einhverra hluta vegna að sækja námið utan hefðbundins skólatíma grunnskólans. Þegar ekki er unnt að senda kennara á starfstöðvar skólans er Lón gjarnan líka nýtt í þeim tilfellum.

Kær kveðja úr Tónlistarskóla Eyjafjarðar
Guðlaugur Viktorsson, Helga Kvam

Mið- og framhaldstónleikar

Á morgun þriðjudaginn 25. febrúar kl.20:00 verða haldnir Mið- og framhaldstónleikar Tónlistarskóla Eyjafjarðar í Laugarborg.
Þar leika nokkrir af okkar lengra komnu nemendum fjölbreytta efnisskrá.

Flutt verða verk allt frá tímum Bach og Scarlatti til Bernstein og Farleon.
Auk píanóleiks heyrum við í þverflautu, rafgítar, harmónikku, trompet og söng.

Tónleikarnir eru öllum opnir sem á vilja hlýða og ég hvet sérstaklega aðstandendur þeirra sem fram koma að fjölmenna, hlú að og hvetja okkar tónlistarfólk. Við kennarar hlökkum til að sjá ykkur sem flest og njóta stundarinnar með okkur.  

Jólafrí

Kennslu er lokið á þessu ári og við tekur jólafrí. Við í Tónlistarskóla Eyjafjarðar óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og sjáumst kát á nýju ári.
Kennsla hefst skv stundaskrá fimmtudaginn 3. janúar.

Jólatónfundir

Jólatónfundir í Tónlistarskóla Eyjafjarðar verða eftirfarandi:
10 des er Petrea með jólatónfund í Laugarborg kl 19:00
11 des er Elín Jakobs með jólatónfund í Gamla skóla á Grenivík kl 17:30
13 des er Jakub með sinn jólatónfund í stofu 1 á Hrafnagili kl 18:00
13 des er Brynjólfur með jólatónfund í Lóni kl 18:00
18 des er Marcin með jólatónfund á Hrafnagili kl 17:00
18 des eru Ásdís og Helga með jólatónfund í stofu 1 á Hrafnagili kl 18:00
18 des verður Söngdeildin með sinn jólatónfund kl 20:00 í Laugarborg
20 des verður jólatónfundur í Þelamerkurskóla frá kl 8:35-9:10 á sal

 

30 ára afmæli Tónlistarskóla Eyjafjarðar

Þemadagar verða haldnir vikuna 12.-16. nóvember á starfssvæði Tónlistarskóla Eyjafjarðar með þátttöku grunnskólanna á Hrafnagili, Þelamörk og Grenivík. Þemaverkefnið er Hernámsárin og eru nemendur nú þegar byrjaðir að æfa tónlist frá því tímabili, bæði í einleik og samspili ýmiskonar. Lýkur vinnu þemavikunnar með stórhátíð í íþróttahúsi Hrafnagilsskóla á föstudaginn 16. nóvember kl 13:00. Þar verður hægt að sjá afrakstur vinnunnar; smiðjur þar sem unnið er með allskyns skemmtilega og spennandi hluti, kaffihús þar sem boðið verður upp á tónleika og ljúfar veitingar og hátíðardagskrá á sal þar sem m.a. verður frumflutt lag eftir Daníel Þorsteinsson og Hjörleif Hjartarson, sem þeir sömdu í tilefni af 30 ára afmæli skólans. Stórsveit nemenda og kennara Tónlistarskóla Eyjafjarðar leikur fyrir dansi.
Aðgangur á hátíðina er ókeypis og allir velkomnir. Vonum að allir sjái sér fært um að koma og gera sér glaðan dag með okkur.

Skólabyrjun

Skólinn byrjaði fimmtudaginn 23. ágúst og eru stundaskrár fyrir Hrafnagil komnar á vefinn. Stundaskrár fyrir Þelamörk og Grenivík ættu að koma næstu daga.