30 ára afmæli Tónlistarskóla Eyjafjarðar

Þemadagar verða haldnir vikuna 12.-16. nóvember á starfssvæði Tónlistarskóla Eyjafjarðar með þátttöku grunnskólanna á Hrafnagili, Þelamörk og Grenivík. Þemaverkefnið er Hernámsárin og eru nemendur nú þegar byrjaðir að æfa tónlist frá því tímabili, bæði í einleik og samspili ýmiskonar. Lýkur vinnu þemavikunnar með stórhátíð í íþróttahúsi Hrafnagilsskóla á föstudaginn 16. nóvember kl 13:00. Þar verður hægt að sjá afrakstur vinnunnar; smiðjur þar sem unnið er með allskyns skemmtilega og spennandi hluti, kaffihús þar sem boðið verður upp á tónleika og ljúfar veitingar og hátíðardagskrá á sal þar sem m.a. verður frumflutt lag eftir Daníel Þorsteinsson og Hjörleif Hjartarson, sem þeir sömdu í tilefni af 30 ára afmæli skólans. Stórsveit nemenda og kennara Tónlistarskóla Eyjafjarðar leikur fyrir dansi.
Aðgangur á hátíðina er ókeypis og allir velkomnir. Vonum að allir sjái sér fært um að koma og gera sér glaðan dag með okkur.

Námsmat fyrir veturinn 2013 – 2014

 Undanfarna vetur höfum við kennarahópurinn rætt töluvert um námsmatið í skólanum, kosti og galla prófa. Okkur fannst  þau ekki skila því sem til var ætlast, tókum við því þá ákvörðun síðasta vor að gera breytingar á námsmati á þessum vetri.

Í vetur höfum við ákveðið að sleppa öllum ársprófum og í staðinn fá allir nemendur umsögn frá sínum kennara. Áfangapróf þ.e. grunnpróf, miðpróf og framhaldspróf verða  áfram við líði auk stigsprófa en hefðbundin árspróf falla niður. Umsögn kennara verður mun ítarlegri en verið hefur og mun þar koma fram námsframvinda vetrarins.

Allir kennarar munu halda sérstaka tónfundi (tónleika) með sínum nemendum þar sem hver nemandi leikur 2 – 4 lög og síðan er tekin mynd af hópnum sem sett verður á umsagnarblaðið.  Þessir tónfundir eru ætlaðir foreldrum og er mjög áríðandi að þeir geti verið með.

 

 

Eiríkur G. Stephensen skólastjóri