Inngangur
Umhverfi námsins breytist með nemendahópnum og tekur því námskráin breytingum til að aðlagast einstaklingunum og er það stefnan að bæta námskránna ár hvert.
Skólanámskrá getur aldrei orðið endanleg. Hún þarfnast stöðugrar endurskoðunar og er breytingum háð frá ári til árs, þótt meginatriði hennar geti verið óbreytt lengur.

Skólanámskrá er ætluð foreldrum og öðrum aðstandendum nemenda skólans, nemendum sjálfum, skólayfirvöldum og rekstraraðilum/sveitarstjórn.

Í skólanámskránni er reynt að taka á flestu sem lýtur að skipulagi, námi og kennslu í Tónlistarskólanum. Leitast er við að gefa góða heildarsýn yfir sem flesta þætti starfsins, m.a. hvaða nám er í boði og hverjum það er ætlað, uppbyggingu deildarinnar og kennsluhætti.  Fjallað er um námsmat og þær hugmyndir sem liggja að baki starfi skólans.

Gildi tónlistarnáms er margþætt. Markvisst tónlistaruppeldi miðar að auknum þroska einstaklinga, þjálfar huga og eflir tjáningarhæfni nemenda. Þess utan veitir tónlistarnám lífsfyllingu og hefur víðtækt félagslegt gildi.

Tónlistarskólar gegna lykilhlutverki við miðlun tónlistarþekkingar og uppbyggingu tónlistarlífs. Tónlistariðkun er meginatriði í öllu tónlistaruppeldi og mikilvægt er að námið veki ánægju og örvi nemendur til að iðka, njóta og skapa eigin tónlist.

Markmið og hlutverk tónlistarskóla
Úr 3gr reglugerðar fyrir Tónlistarskóla Eyjafjarðar:
Markmið skólans er að efla tónlistarþekkingu og iðkun tónlistar, auk þess að stuðla að eflingu tónlistarlífs í aðildarsveitarfélögunum. Þessum markmiðum hyggst skólinn ná meðal annars með því:

  • Að annast kennslu í hljóðfæraleik og söng ásamt kennslu í öðrum tónlistargreinum sem gert er ráð fyrir í aðalnámskrám tónlistarskóla.
  • Að bjóða upp á kennslu í sem flestum greinum tónlistar, þar sem börnum jafnt sem fullorðnum gefst kostur á að stunda tónlistarnám eftir því sem aðstæður leyfa.
  • Að búa nemendum fjölbreytt skilyrði til að þroska tónlistarhæfileika sína og sköpunargáfu.
  • Að leggja áherslu á félagslegt gildi tónlistariðkunar með þátttöku nemenda í samleik og hljómsveitarstarfi.
  • Að búa nemendur undir framhaldsnám í tónlist.
  • Að styðja kennara skólans til tónleikahalds.
  • Að öllum nemendum í 1.-10. bekk grunnskólanna, sé gefinn kostur á að stunda tónlistarnám sitt sem hluta af samfelldum skóladegi.

Leiðarljós Tónlistarskóla Eyjafjarðar
Að skólinn sé leiðandi í tónlistarfræðslu á sínu starfssvæði; að sérfræðiþekking innan tónlistarskólans sé nýtt í samstarfi við grunn- og leikskóla sveitarfélaganna. 

Lögð er áhersla á samvinnu við aðra tónlistarskóla á svæðinu.
Áhersla lögð á þátttöku nemenda í samleik og hljómsveitarstarfi.
Fjölbreytni og sveigjanleiki í kennsluháttum.
Gott samstarf við heimilin og regluleg samskipti við forráðamenn.
Að nemendur kynnist fjölbreyttri tónlist og njóti þátttöku í tónlistarlífi síns samfélags.


Aðalnámskrá Tónlistarskóla
Aðalnámskrá lýsir meginmarkmiðum náms í tónlistarskólum allt að háskólastigi. Hlutverk aðalnámskrár er einkum að samræma helstu þætti tónlistarnáms, bæði milli skóla og innan einstakra skóla. Lögð er áhersla á sjálfstæði skóla. Í því skyni er í aðalnámskrá tilmæli um að starfssvið tónlistarskóla skuli skilgreint í skólanámskrá þar sem fram komi markmið náms og fyrirkomulag skólastarfs í viðkomandi skóla. Við gerð skólanámskrár skal taka mið af stefnumörkun aðalnámskrár tónlistarskóla ásamt því að setja fram sérhæfð og staðbundin markmið einstakra skóla.

Námsleiðir
Klassísk/Rhytmísk/Blönduð leið
Blönduð leið: Undirstöðuatriði/grunnatriði, meira frjálsræði í verkefnavali utan hefðbundinnar námskrár.

Námsmat/Áfangar í námi
G1-G2-GRUNN-M1-(M2)-MIÐ osfr
G1, G2, M1, M2 undanfarar (valkvæðir)
Umsögn án prófs

Samstarf við foreldra/forráðamenn
Beint samband milli foreldra/forráðamanna og kennara er mikilvægt, enda gefur það möguleika á að ræða um tónlistarnám nemandans. Mikilvægum upplýsingum er þá oft komið á framfæri sem geta nýst við að aðstoða nemandann við heimanámið. Foreldraviðtöl og foreldrakynning fyrir aðstandendur nýrra nemenda. 


GREINANÁMSKRÁR

TRÉBLÁSTURSHLJÓÐFÆRI
Til tréblásturshljóðfæra heyra: þverflauta, klarinett, óbó, saxófónn og fagott.
Einungis eru þverflautu- klarinettu- og saxófónemendur við Tónlistarskóla Eyjafjarðar.

ÞVERFLAUTA
Um hljóðfærið
Þverflautan hefur verið í stöðugri þróun í gengum aldirnar. Barokkflautan er enn til í upprunalegri mynd og notuð í barokktónlist, tréþverflauta með engum klöppum.
Theobald Böhm hannaði nútíma- þverflautuna sem er með klappakerfi. Hann kynnti þessa nýju þverflautu árið 1847 og er hún enn í fullu gildi, smíðuð úr tré, silfri eða gulli. Til eru þverflautur úr plasti og þverflautur með bogna hálsa fyrir yngri nemendur. Yfirleitt byrja nemendur frá 8 ára aldri að læra á þverflautu og fer eftir stærð nemendanna hvort þeir byrji að læra á venjulega silfur-flautu, plastflautu eða þverflautu með bognum hálsi.
Það eru líka til bassaflautur, altflautur og piccolo flautur sem eru notaðar í hljómsveitum, flautukórum og flautusamspili.

Kennsluaðferðir
Þegar hafið er nám í þverflautuleik er byrjað að ná tóni einungis á munnstykkið. Það getur tekið eina til tvær vikur að ná góðum tóni en síðan læra nemendur hratt og eru yfirleitt tilbúnir í fyrsta jólalagið í desember ef þau byrja að hausti. Það er mikilvægt að læra rétta líkamsstöðu, temja sér góða öndun og æfa langa tóna. Seinna bætast við til upphitunar fjölbreyttari tónæfingar og fingraæfingar. Upphitun  er mjög mikilvæg eins og í íþróttum því í þverflautunámi erum við að læra að samhæfa fingur, blástur, munnsetningu og varahreyfingar. Það er líka ástæðan fyrir því að svo mikilvægt era ð æfa heima. Ekki þarf að æfa nema í tíu til tuttugu mínútur daglega til að góður árangur náist. Æfingatíminn lengist svo þegar nemendur verða eldri og námið þyngist. Þverflautunemendur spila mjög fjölbreytt lög, allt frá 300 ára gömlum verkum til popplaga líðandi stundar. Þverflautunemendur spila oft saman í flautusamspilum og taka einnig þátt í ýmiskonar samspili með öðrum hljóðfæranemendum. Þeim gefst kostur á að æfa með Grunn- og Blásarasveit Tónlistarskólans á Akureyri.

KLARINETT
Um hljóðfærið
Klarinett er tréblásturshljóðfæri með einföldu reyrblaði, yfirleitt úr íbenviði. Frá því fyrir Krist voru til hljóðfæri með einföldu reyrblaði í Egyptaland, en klarinettið var fundið upp og smíðað af  Johann Cristoph Denner um 1700. Þessi fyrstu klarinett höfðu opin fingurgöt og einungis tvo klappa en smátt og smátt bættust fleiri klappar við. Hljóðfærið var í stöðugri þróun til síðari hluta nítjándu aldar, síðan þá hefur það lítið breyst.

Klarinettið hefur stærsta tónsvið allra tréblásturshljóðfæra. Það er smíðað í ýmsum stærðum en algengast er A- og B- klarinett og bassaklarinett.

Kennsluaðferðir
Í upphafi náms á klarinett eru nemendum veittar upplýsingar um eðli og byggingu hljófærsins.
Klarinett er samsett úr fimm hlutum og nemendur læra að setja hljóðfærið saman í heild.
Eins og á þverflautu byrja nemendur að ná tóni eingöngu á munnstykkið. Til þess að hefja klarinettunám þurfa nemendur að hafa fullorðinsframtennur. Áður en það er gert æfir nemandinn sig í því að setja tréblaðið á munnstykkið. Nemendum er kennt að beita réttri munnstöðu á munnstykkið áður en byrjað er að móta tón. Eftir eina viku til tvær fá nemendur að leika á samsett hljóðfæri. Þeim er kennd rétt líkamsstaða og handagrip á klarinettið. Með þessum tæknilegu atriðum læra nemendur að temja sér góða öndun, sem sagt ,,anda ofan í maga” (virkja þindaröndun). Upphitun er mikilvægt atriði eins og í íþróttum. Í upphitun eru langir tónar mjög mikilvægt atriði hvað varðar mótun, intónun, úthald og fallega tónmyndun. Smám saman bætum við tækniæfingum og þyngjum námsefnið til þess til þess að læra góða fingra- og tungutækni (portato, legato og staccato). Á fyrsta námsári er nemendum kennt á miðsviði klarinettsins (chalumeau) frá e til b¹. Næst þegar lægstu klarinettutónum er náð bætum við miðsviðinu við (clarino) sem eru tímamót í klarinettuleik. Nemendur læra nýtt grip á þessu sviði. Við leggjum áherslu á heimaæfingar: fyrst stutt frá 5-10 mín., en æfingatíminn lengist með aldrinum og reynslu. Mjög mikilvægt atriði í náminu er samspil. Skólinn býður upp á allskonar möguleika á samspili, bæði innan skóla og í samstarfi við Tónlistarskólann á Akureyri. Á námstímanum er nemendum boðið að taka þátt í tónleikum og lengra komnir nemendur hafa möguleika á því að taka fjölbreytt úrval af prófum í samráði við kennara eins og árspróf, stigspróf og áfangapróf prófanefndar tónlistarskólanna.

SAXÓFÓNN
Um hljóðfærið
Saxófónninn var fundinn upp af Adolphe Sax árið 1846. Það telst til tréblásturshljóðfæra þar sem blásið er í munnstykki sem er úr einföldu reyrblaði eins og klarinettið. Nemendur læra á alt-saxófón en fleiri stærðir eru til og þá algengast bariton-, sópran- og bassasaxófónn.

Kennsluaðferðir
Kennsluaðferðir á saxófón eru svipaðar og á klarinett. Saxófónn er töluvert stærri og þyngri en klarinett. Þess vegna nota saxófónlekaranir sérstaka ól sem er hengd á hálsinn. Samsetningin er einfaldari því að saxófónn er í þrem hlutum. Nemendur læra að taka rétta líkamsstöðu og handagrip. Tónmyndun og blásturinn er svipaður og á klarinett en nótnagrip er einfaldara, stundum er það kallað blokkflautugrip. Saxófónn er hljóðfæri sem er notað í fjölbreyttum tónlistarstílum, s.s. klassík, jazz, popp. Saxófónn er tilvalið hljóðfæri til þess að spila í samspili (big band, blásarasveitir og fleiri).

Námsmat
Að hausti gera kennari og nemandi markmiðasamning þar sem línur eru lagðar fyrir vinnu vetrarins, markmiðasamningurinn er í sífelldri vinnslu og endurskoðun á meðan á námi stendur.
Í lok skólaárs fá allir nemendur skriflega umsögn frá sínum kennara og niðurstöður prófa eins og við á. Námsmat byggir á símati á framförum, tímasókn, iðni (æfingar og vinna í tímum) og öðrum þeim þáttum sem kennari og nemandi hafa unnið með.

Próf
Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla skiptist námið í þrjá megináfanga; grunnnám, miðnám og framhaldsnám og lýkur með áfangaprófum í hljóðfæraleik og tónfræðagreinum.
Gert er ráð fyrir að hver nemandi taki aðfarapróf í hverjum áfanga G1og G2 í grunnnámi. M1 og M2 í miðnámi og í F1 og F2 í framhaldsstigi. Það er val nemenda og kennara hverju sinni að sleppa öðru aðfaraprófinu í hverjum áfanga telji kennari það henta námsframvindu nemandans.
Námstími innan hvers áfanga er breytilegur og ræðst m.a. af aldri, þroska, ástundun, stuðningi heimilis,  framförum og námsyfirferð. 

Áfangapróf eru metin af sérþjálfuðum prófdómurum á vegum Prófanefndar tónlistarskóla. Til þess að áfangapróf séu fullgild, þurfa nemendur að ljúka viðeigandi námi í tónfræðagreinum á sama skólaári eða að hafa lokið því áður.

Grunnnám:
Hljóðfæranám
Tónfræðagreinar
Hljómsveitir/samspil 

Miðnám:
Hljóðfæranám. Undanfari er Grunnpróf

Tónfræðagreinar
Hljómsveitir/samspil 

Framhaldsnám:
Hljóðfæranám. Undanfari er Miðpróf. Tónfræðagreinum lokið með Miðprófi
Námi lýkur með framhaldsprófi og Burtfarartónleikum
Tónheyrn I og II
Hljómfræði I og II
Tónlistarsaga I – IV
Hljómsveitir/samspil 

HLJÓMBORÐSHLJÓÐFÆRI
Til hljómborðshljóðfæra teljast píanó, orgel, semball, hljómborð og harmonika.

PÍANÓ
Um hljóðfærið
Píanó hefur alla tíð verið eitt allra vinsælasta hljóðfærið við tónlistarskólann. Hefðbundið píanónám mótast að einhverju leyti af rótgrónu einleikshlutverki hljóðfærisins í tónbókmenntunum og er mikilvægt samleikshljóðfæri.
Píanóið er ungt hljóðfæri, aðeins um 200 ára gamalt en byggir þó á aldalangri þróun annarra hljómborðshljóðfæra.
Á Íslandi voru píanó sjaldgæf í húsum landsmanna en í dag eru píanó í flestum skólum, samkomuhúsum, kirkjum og algeng á heimilum.
Í dag eru til rafmagnshljóðfæri með þyngdum nótum sem henta ágætlega nemendum í píanónámi ásamt því að rafmagnshljóðfæri eru notuð í ýmsum stílbrigðum tónlistar. Nauðsynlegt er að nemendur hafi aðgang að píanói til æfinga.

Kennsluaðferðir
Kennsluaðferðir eru fjölbreyttar og miðast við aldur og þroska nemenda og hver kennari mótar sínar aðferðir. Píanónemendur taka einnig þátt í ýmiskonar samspili með öðrum hljóðfæranemendum.

Námsmat
Að hausti gera kennari og nemandi markmiðasamning þar sem línur eru lagðar fyrir vinnu vetrarins, markmiðasamningurinn er í sífelldri vinnslu og endurskoðun á meðan á námi stendur.
Í lok skólaárs fá allir nemendur skriflega umsögn frá sínum kennara og niðurstöður prófa eins og við á. Námsmat byggir á símati á framförum, tímasókn, iðni (æfingar og vinna í tímum) og öðrum þeim þáttum sem kennari og nemandi hafa unnið með.

Próf
Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla skiptist námið í þrjá megináfanga; grunnnám, miðnám og framhaldsnám og lýkur með áfangaprófum í hljóðfæraleik og tónfræðagreinum.
Gert er ráð fyrir að hver nemandi taki aðfarapróf í hverjum áfanga G1og G2 í grunnnámi. M1 og M2 í miðnámi og í F1 og F2 í framhaldsstigi. Það er val nemenda og kennara hverju sinni að sleppa öðru aðfaraprófinu í hverjum áfanga telji kennari það henta námsframvindu nemandans.
Námstími innan hvers áfanga er breytilegur og ræðst m.a. af aldri, þroska, ástundun, stuðningi heimilis,  framförum og námsyfirferð. 

Áfangapróf eru metin af sérþjálfuðum prófdómurum á vegum Prófanefndar tónlistarskóla. Til þess að áfangapróf séu fullgild, þurfa nemendur að ljúka viðeigandi námi í tónfræðagreinum á sama skólaári eða að hafa lokið því áður.

Grunnnám:
Hljóðfæranám
Tónfræðagreinar
Hljómsveitir/samspil 

Miðnám:
Hljóðfæranám. Undanfari er Grunnpróf

Tónfræðagreinar
Hljómsveitir/samspil 

Framhaldsnám:
Hljóðfæranám. Undanfari er Miðpróf. Tónfræðagreinum lokið með Miðprófi
Námi lýkur með framhaldsprófi og Burtfarartónleikum
Tónheyrn I og II
Hljómfræði I og II
Tónlistarsaga I – IV
Hljómsveitir/samspil 

STRENGJAHLJÓÐFÆRI
Hin svokallaða strengjafjölskylda samanstendur af fiðlu, víólu, selló og kontrabassa. Fiðlan er með hæstu tónhæðina en kontrabassinn er stærstur og með dýpstu tónana. Víólan og sellóið eru þar á milli. Á öll hljóðfærin er leikið með boga sem hrosshár eru strengd í. Einnig er hægt að plokka strengina með fingrum.
Fiðla, víóla og selló hafa fjóra strengi hvert hljóðfæri og er fimmundartónbil á milli hvers strengs. Kontrabassinn hefur ýmist fjóra eða fimm strengi og er ferundartónbil á milli hvers strengs. 

Gítar telst einnig til strengjafjölskyldunnar.

SELLÓ
Selló eða hnéfiðla er með pinna sem dreginn er út úr því að neðan og tyllt á gólf. Sellóleikarinn situr með hljóðfærið í fanginu. 

Sellóið er stundum sagt vera það hljóðfæri sem kemst hvað næst mannsröddinni. 

KONTRABASSI
Hægt er ýmist að standa eða sitja við kontrabassa. Þegar staðið er við hann verður mikil snerting við líkamann og hljóðfæraleikarinn fær hljóðbylgjurnar beint í líkamann sem er góð tilfinning. 

FIÐLA
Fiðla er strengjahljóðfæri með  fjórum strengjum. Það er fimmund á milli allra strengja  og sá dýpsti er stilltur á G fyrir neðan mið c. Leikið er á fiðluna með því að strjúka  boga yfir strengina eða plokka þá með fingrunum(pizzicato). Tónhæð er stjórnað með því að þrýsta á strengi  á fingrabrettinu með viðeigandi fingrum vinstri handar.

Kennsluaðferðir
Hljóðfæranám er einstaklingsmiðað og nemandi og kennari ákveða hvaða aðferð og verkefni henta hverjum og einum best. Nauðsynlegt er að fylgja námskrá tónlistarskóla ef nemandi kýs að taka áfangapróf.
Suzukiaðferð/Móðurmálsaðferð er hægt að læra hjá kennurum með tilskilin réttindi. Þátttaka foreldra er nauðsynleg til þess að aðferðin gangi vel. Sjá nánar á suzukisamband.is. 

Námsmat
Að hausti gera kennari og nemandi markmiðasamning þar sem línur eru lagðar fyrir vinnu vetrarins, markmiðasamningurinn er í sífelldri vinnslu og
endurskoðun á meðan á námi stendur. Í lok skólaárs fá allir nemendur skriflega umsögn frá sínum kennara og niðurstöður prófa eins og við á. Námsmat byggir á símati á framförum, tímasókn, iðni (æfingar og vinna í tímum) og öðrum þeim þáttum sem kennari og nemandi
hafa unnið með.  
Nemendur sem stunda nám samkvæmt móðurmálsaðferð fara í útskrift við lok hverrar bókar. Þá eru dregin lög úr bókinni og nemandi leikur þrjú lög á tónleikum. 

Próf
Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla skiptist námið í þrjá megináfanga;
grunnnám, miðnám og framhaldsnám og lýkur með áfangaprófum í
hljóðfæraleik og tónfræðagreinum.
Gert er ráð fyrir að hver nemandi taki aðfarapróf í hverjum áfanga G1og G2 í grunnnámi. M1 og M2 í miðnámi og í F1 og F2 í framhaldsstigi. Það er val nemenda og kennara hverju sinni að sleppa öðru aðfaraprófinu í hverjum áfanga telji kennari það henta námsframvindu nemandans. Námstími innan hvers áfanga er breytilegur og ræðst m.a. af aldri, þroska,
ástundun,
stuðningi heimilis,  framförum og námsyfirferð.
Áfangapróf eru metin af sérþjálfuðum prófdómurum á vegum Prófanefndar
tónlistarskóla. Til þess að áfangapróf séu fullgild, þurfa nemendur að ljúka
viðeigandi námi í 
tónfræðagreinum á sama skólaári eða að hafa lokið því áður. 

Grunnnám:
Hljóðfæranám
Tónfræðagreinar
Hljómsveitir/samspil 

Miðnám:
Hljóðfæranám. Undanfari er Grunnpróf

Tónfræðagreinar
Hljómsveitir/samspil 

Framhaldsnám:
Hljóðfæranám. Undanfari er Miðpróf. Tónfræðagreinum lokið með Miðprófi
Námi lýkur með framhaldsprófi og Burtfarartónleikum
Tónheyrn I og II
Hljómfræði I og II
Tónlistarsaga I – IV
Hljómsveitir/samspil 

Nemendum sem stunda nám á strengjahljóðfæri við Tónlistarskóla Eyjafjarðar býðst að taka þátt í hljómsveitarstarfi við Tónlistarskólann á Akureyri. Þar eru starfræktar þrjár nemendahljómsveitir á yngsta-, mið- og framhaldsstigi. Gott samstarf er á milli tónlistarskóla í Eyjafirði, Akureyri og Tröllaskaga. Annað hvert ár eru haldin landsmót strengjasveita og einnig fara strengjasveitirnar með reglulegu millibili til útlanda. Langt komnir strengjanemendur fá tækifæri til þess að leika með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. 

Nemendur sem stunda nám samkvæmt móðurmálsaðferð geta einnig sótt hóptíma á Akureyri. 

 KLASSÍSKUR GÍTAR
Um hljóðfærið
Fá hljóðfæri hafa notið meiri vinsælda en gítarinn undanfarna áratugi, bæði í klassískri og rytmískri tónlist. Hann er algengastur undirleikshljóðfæra við alþýðusöng. Klassískur gítar í þeirri mynd sem við þekkjum hann í dag á sér um 200 ára sögu. Tónbókmenntir hljóðfærisins spanna hinsvegar lengri tíma því að lútu- og gítartónlist endurreisnar- og barokktímabilsins er oft flutt á klassískan gítar.

RAFGÍTAR
Um hljóðfærið
Rafgítarinn á sér stutta sögu samanborið við önnur hljóðfæri enda ekki ýkja langt síðan rafmagn var tekið til almennrar notkunar. Fyrsti rafgítarinn kom fram á fjórða áratug tuttugustu aldar og elstu upptökur eru einnig frá þeim tíma. Rafgítar er vinsæll í djasstónlist og nánast ómissandi í blús-, popp- og rokktónlist.

Kennsluaðferðir
Áhersla er lögð á áhugavekjandi og einstaklingsmiðaða kennslu með fjölbreyttum viðfangsefnum. Klassískar tónbókmenntir eru í fyrirrúmi en eftir því sem við á er gripið til verkefna úr rytmískum gítarbókmenntum sem hafa verið löguð að klassískum gítar. Námið hefst með einradda lögum við undirleik kennara sem þróast svo yfir í fjölradda einleik nemandans og samspil með öðrum.

Námsmat
Að hausti gera kennari og nemandi markmiðasamning þar sem línur eru lagðar fyrir vinnu vetrarins, markmiðasamningurinn er í sífelldri vinnslu og endurskoðun á meðan á námi stendur.
Í lok skólaárs fá allir nemendur skriflega umsögn frá sínum kennara og niðurstöður prófa eins og við á. Námsmat byggir á símati á framförum, tímasókn, iðni (æfingar og vinna í tímum) og öðrum þeim þáttum sem kennari og nemandi hafa unnið með.

Próf
Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla skiptist námið í þrjá megináfanga; grunnnám, miðnám og framhaldsnám og lýkur með áfangaprófum í hljóðfæraleik og tónfræðagreinum.
Gert er ráð fyrir að hver nemandi taki aðfarapróf í hverjum áfanga G1og G2 í grunnnámi. M1 og M2 í miðnámi og í F1 og F2 í framhaldsstigi. Það er val nemenda og kennara hverju sinni að sleppa öðru aðfaraprófinu í hverjum áfanga telji kennari það henta námsframvindu nemandans.
Námstími innan hvers áfanga er breytilegur og ræðst m.a. af aldri, þroska, ástundun, stuðningi heimilis,  framförum og námsyfirferð.
Áfangapróf eru metin af sérþjálfuðum prófdómurum á vegum Prófanefndar tónlistarskóla. Til þess að áfangapróf séu fullgild, þurfa nemendur að ljúka viðeigandi námi í tónfræðagreinum á sama skólaári eða að hafa lokið því áður.

Grunnnám:
Hljóðfæranám
Tónfræðagreinar
Hljómsveitir/samspil 

Miðnám:
Hljóðfæranám. Undanfari er Grunnpróf

Tónfræðagreinar
Hljómsveitir/samspil 

Framhaldsnám:
Hljóðfæranám. Undanfari er Miðpróf. Tónfræðagreinum lokið með Miðprófi
Námi lýkur með framhaldsprófi og Burtfarartónleikum
Tónheyrn I og II
Hljómfræði I og II
Tónlistarsaga I – IV
Hljómsveitir/samspil

Í vinnslu: Harmonikka, hljómborð, málmblásturshljóðfæri