Tónlistarskóli Eyjafjarðar er byggðasamlag sveitarfélaganna Eyjafjarðarsveitar, Hörgársveitar, Svalbarðsstrandarhrepps og Grýtubakkahrepps og geta íbúar þeirra sveitarfélaga sótt nám við skólann.
Skólanefnd skipuð fulltrúum aðildarsveitafélaganna fjallar um málefni skólans og er rekstrar- og fjárhagsáætlun skólans lögð fyrir sveitarstjórnir aðildarsveitarfélaganna.

Skólastjóri Tónlistarskóla Eyjafjarðar er Guðlaugur Viktorsson og aðstoðarskólastjóri er Helga Kvam. Skólastjórnendur bera ábyrgð á því sem lýtur að faglegu tónlistarstarfi,  ráðningu starfsmanna, skipulagningu náms og kennslu, skráningu nemenda, skipulagningu skólaársins,  samstarf við aðrar stofnanir sveitarfélagsins, hljóðfæra- og námsgagnakaup ofl. 
Í starfi skólans er tekið tillit til starfsemi grunn- og leikskóla aðildarsveitarfélaganna.
Tónlistarskólinn hefur sitt eigið skóladagatal, samþykkt af skólanefnd.

Aðalnámskrá tónlistarskóla kveður svo á um að hver tónlistarskóli geri sína skólanámskrá til að skilgreina starfssvið sitt og markmið. Vefsíða Tónlistarskóla Eyjafjarðar er upplýsingamiðill og jafnframt skólanámskrá skólans. Með vefsíðunni uppfyllir skólinn áðurnefnt ákvæði aðalnámskrárinnar og vill með því stuðla að árangursríku skólastarfi. Tónlistarskólinn starfar skv. aðalnámskrá tónlistarskóla og greinanámskrám hennar með hliðsjón af skólastefnum aðildarsveitarfélaganna.

https://www.esveit.is/static/files/Samthyktir/skolastefna-eyjafjardarsveitar-mai-2017.pdf
https://www.svalbardsstrond.is/static/files/thjonusta/Menntun/skolastefnav4.pdf
https://www.grenivik.is/static/files/reglur/skolastefa.pdf
https://www.horgarsveit.is/static/files/thjonusta/menntun-og-fraedsla/skolastefna-horgarsveitar-2020.pdf

Aðalnámskrá tónlistarskóla skiptist í almennan hluta og sérstaka greinahluta. Í almennum hluta er meðal annars gerð grein fyrir hlutverki og meginmarkmiðum tónlistarskóla, skipan tónlistarnáms, greinanámskrám og skólanámskrá, fjallað um kennslu og kennsluhætti, þætti í hljóðfæra- og tónfræðanámi, námsmat og próf, tengsl heimila og skóla og samvinnu í skólastarfi.  Í greinahlutum aðalnámskrár tónlistarskóla er fjallað um markmið, inntak og skipulag náms á tilteknum námssviðum. Jafnframt er gerð grein fyrir prófum og gefnar ábendingar um viðfangsefni.

Skólanámskrá er starfsáætlun skólans og er nánari útfærsla á Aðalnámskrá tónlistarskóla. Í skólanámskránni er reynt að taka á flestu sem lýtur að skipulagi, námi og kennslu í Tónlistarskólanum. Leitast er við að gefa góða heildarsýn yfir sem flesta þætti starfsins, m.a. hvaða nám er í boði og hverjum það er ætlað, uppbyggingu skólans og kennsluhætti.  Fjallað er um námsmat og þær hugmyndir sem liggja að baki starfi skólans.
Skólanámskrá er lifandi skjal og breytingum háð frá ári til árs, þótt meginatriði hennar geti staðið óbreytt. Skólanámskrá er ætluð foreldrum og öðrum aðstandendum nemenda skólans, nemendum sjálfum, skólayfirvöldum og rekstraraðilum/sveitarstjórnum.

Markmið og hlutverk tónlistarskóla
Gildi tónlistarnáms er margþætt. Markvisst tónlistaruppeldi miðar að auknum þroska einstaklinga, þjálfar huga og eflir tjáningarhæfni nemenda. Þess utan veitir tónlistarnám lífsfyllingu og hefur víðtækt félagslegt gildi.
Tónlistarskólar gegna lykilhlutverki við miðlun tónlistarþekkingar og uppbyggingu tónlistarlífs. Tónlistariðkun er meginatriði í öllu tónlistaruppeldi og mikilvægt er að námið veki ánægju og örvi nemendur til að iðka, njóta og skapa eigin tónlist.

Úr 3.gr reglugerðar fyrir Tónlistarskóla Eyjafjarðar:
Markmið skólans er að efla tónlistarþekkingu og iðkun tónlistar, auk þess að stuðla að eflingu tónlistarlífs í aðildarsveitarfélögunum. Þessum markmiðum hyggst skólinn ná meðal annars með því:

  • Að annast kennslu í hljóðfæraleik og söng ásamt kennslu í öðrum tónlistargreinum sem gert er ráð fyrir í aðalnámskrám tónlistarskóla.
  • Að bjóða upp á kennslu í sem flestum greinum tónlistar, þar sem börnum jafnt sem fullorðnum gefst kostur á að stunda tónlistarnám eftir því sem aðstæður leyfa.
  • Að búa nemendum fjölbreytt skilyrði til að þroska tónlistarhæfileika sína og sköpunargáfu.
  • Að leggja áherslu á félagslegt gildi tónlistariðkunar með þátttöku nemenda í samleik og hljómsveitarstarfi.
  • Að búa nemendur undir framhaldsnám í tónlist.
  • Að styðja kennara skólans til tónleikahalds.
  • Að öllum nemendum í 1.-10. bekk grunnskólanna, sé gefinn kostur á að stunda tónlistarnám sitt sem hluta af samfelldum skóladegi.

Leiðarljós Tónlistarskóla Eyjafjarðar
Að skólinn sé leiðandi í tónlistarfræðslu á sínu starfssvæði; að sérfræðiþekking innan tónlistarskólans sé nýtt í samstarfi við grunn- og leikskóla sveitarfélaganna. 
Lögð er áhersla á samvinnu við aðra tónlistarskóla á svæðinu.
Áhersla lögð á þátttöku nemenda í samleik og hljómsveitarstarfi.
Fjölbreytni og sveigjanleiki í kennsluháttum.
Gott samstarf við heimilin og öflugt foreldrasamstarf.
Að nemendur kynnist fjölbreyttri tónlist og njóti þátttöku í tónlistarlífi síns samfélags.

Starfsstöðvar
Hrafnagil: Skrifstofa og kennslustofur í gömlu heimavist, tónlistarhúsið Laugarborg
Hörgársveit: Kennslustofur í Þelamerkurskóla, tónleikar í Hlíðarbæ og á Melum
Svalbarðsstrandarhreppur: Kennslustofur í Valsárskóla, tónleikar í Skála og Svalbarðskirkju
Grýtubakkahreppur: Kennslustofur í Grenivíkurskóla, tónleikar í matsal og Gamla skóla
Akureyri: Sunnuhlíð-húsnæði KFUMK, hljóðfæra og hópkennsla, tónleikasalur

Samskiptaleiðir
Tónlistarskólinn notar  kerfið Speed Admin til að m.a. auðvelda heimilum samskipti við skóla. Þar er hægt að hafa beint samband við kennara og boða forföll.
Hægt er að hringja beint í Tónlistarskólann í síma 464 8110. Einnig er hægt að senda tölvupóst á te@krummi.is.

Samstarf við foreldra/forráðamenn
Foreldradagar eru haldnir að minnsta kosti tvisvar á skólaári. Hvert skólaár hefst með foreldradögum þar sem hver hljóðfærakennari býður nemendum sínum og forráðamönnum þeirra í viðtal áður en námið hefst. Hljóðfærakennarinn er jafnframt umsjónarkennari nemandans. Þar er farið yfir skipulag námsins, færi gefst á að spyrja spurninga og mikilvægum upplýsingum komið á framfæri. Umsjónarkennarinn veitir einnig upplýsingar um nám nemandans í öðrum greinum eins og tónfræði og samspili.
Beint samband milli foreldra/forráðamanna og kennara er mikilvægt, enda gefur það möguleika á að ræða um tónlistarnám nemandans. 

Námsskipan
Í Tónlistarskóla Eyjafjarðar er kennt á öll helstu hljóðfæri.
Jafnhliða námi á hljóðfæri þurfa nemendur að stunda nám í tónfræðagreinum s.s. tónfræði og tónheyrn, hljómfræði og tónlistarsögu. Auk þess er lögð áhersla á samspil ýmiskonar.
Hljóðfæranámið fer að mestu fram í einkatímum og litlum hópum. Nemendur geta valið um heilt eða hálft nám en námshlutfall getur verið breytilegt t.d. í samkennslu.
Haldnir eru reglulega tónfundir og tónleikar þar sem nemendur koma fram fyrir áhorfendur. Auk þessa fá nemendur ýmis önnur tækifæri til tónlistarflutnings í samfélaginu.
Námið byggir á markmiðasetningum í samvinnu nemenda og kennara, vandaðri áætlanagerð, vali á námsefni, kennsluaðferðum og námsmati sem styður nemendur í að ná færniviðmiðum. Tónlistarskóli Eyjafjarðar tileinkar sér aðferðir leiðsagnarnáms og leiðsagnarmats. 
Til að efla með nemendum sjálfstraust og skapa frjóar námsaðstæður þarf einkum tvennt að fara saman; að verkefnin séu hæfilega krefjandi og þau veki áhuga með viðeigandi hvatningu og endurgjöf. Námsefni og kennsluaðferðir í tónlistarkennslu eru því einstaklingsmiðaðar, engir tveir nemendur eru eins og þar eru óhefðbundnar leiðir, sveigjanleiki og lausnamiðuð nálgun höfð að leiðarljósi.

Námskröfur og heimanám
Foreldrar/forráðamenn geta orðið að miklu liði með því að hjálpa nemendunum að skipuleggja æfingatímann. Stuðningur nánustu fjölskyldumeðlima nemenda getur skipt sköpum í hljóðfæranámi. Í slíkum stuðningi felst uppörvun og aðhald en tónlistarkunnátta er ekki skilyrði. Hljóðfæratímar eru aðeins hálf til ein klukkustund á viku og tímann þar á milli þarf að nýta með reglulegri og góðri heimavinnu. Þó tímalengd æfinga sé mismunandi eftir aldri, og hve langt nemandinn er kominn í náminu, er mjög mikilvægt að leggja áherslu á reglulegar, daglegar æfingar alveg frá upphafi.
Útbúa þarf rétt andrúmsloft og umhverfi fyrir æfingar.
Er til standur fyrir nóturnar? Er stóllinn í réttri hæð? Heyrist of mikið í sjónvarpi úr næsta herbergi? Aðalatriðið er að sýna áhuga á því sem börnin eru að gera.
Eðlilegt er að áhugi nemenda sé ekki alltaf samur og jafn. Ef nemandi sýnir merki um uppgjöf er mikilvægt að kennari og foreldrar/forráðamenn leiti orsaka og lausna. Stundum er nóg að skipta um viðfangsefni til að áhuginn glæðist á ný.

Um námsmat og áfangapróf
Aðalnámskrá Tónlistarskóla
Aðalnámskrá lýsir meginmarkmiðum náms í tónlistarskólum allt að háskólastigi. Hlutverk aðalnámskrár er einkum að samræma helstu þætti tónlistarnáms, bæði milli skóla og innan einstakra skóla. Lögð er áhersla á sjálfstæði skóla. Í því skyni er í aðalnámskrá tilmæli um að starfssvið tónlistarskóla skuli skilgreint í skólanámskrá þar sem fram komi markmið náms og fyrirkomulag skólastarfs í viðkomandi skóla. Við gerð skólanámskrár skal taka mið af stefnumörkun aðalnámskrár tónlistarskóla ásamt því að setja fram sérhæfð og staðbundin markmið einstakra skóla.

Námsmat/Áfangar í námi
Tónlistarskóli Eyjafjarðar tileinkar sér aðferðir leiðsagnarnáms þar sem lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat þar sem  frammistöðumat, sjálfsmat og stöðugt alhliða námsmat spila saman. Skólaárið skiptist í 4 lotur; í upphafi hverrar lotu setur nemandi í samstarfi við kennara sér námsmarkmið fyrir lotuna. Í lok hverrar lotu er námsmat þar sem metin eru þau atriði sem unnið var með samkvæmt markmiðum. Í lok hvers skólaárs er lokanámsmat. Markmið eru endurskoðuð reglulega í hverri lotu og allt skólaárið. Námsmat er árangursríkt þegar það er hluti af námsferli þar nemendur taka virkan þátt í mati og þeim hjálpað til að bæta sig í námi, að matið tengist viðfangsefni, markmiðum og námsskrám.
Hljóðfærakennari semur einstaklingsbundna námsáætlun fyrir hvern nemanda, sem tekur mið af þroska hans, áhuga, vinnugleði og næmi. Töluverður munur getur verið á yfirferð nemenda, sumir vinna hraðar, aðrir hægar. 

Próf eru tekin þegar nemandinn er að mati kennara tilbúinn til þess og hefur tileinkað sér hæfilegt námsefni úr viðkomandi stigi samkvæmt hljóðfæranámskrá.
Námstími innan hvers áfanga getur verið breytilegur og ræðst hann meðal annars af aldri, þroska, ástundun og framförum, að nemandi tileinki sér þá þekkingu og færni sem krafist er í hljóðfæranámskrá viðkomandi hljóðfæris.
Áfangapróf eru samræmd próf Prófanefndar; grunn-, mið- og framhaldspróf en í Tónlistarskóla Eyjafjarðar geta nemendur einnig tekið aðfararpróf fyrir hvern prófanefndaráfanga.

Forföll nemenda og kennara
Einfaldast er að tilkynna forföll í gegnum Speed Admin en einnig er hægt að senda tölvupóst eða hringja í viðkomandi kennara eða á skrifstofu skólans.
Fjarvistir ber að tilkynna samdægurs. Bóklegar greinar /hljómsveit/samspil/samsöngur teljast til námsgreina rétt eins og einkatímar.
Kennurum ber ekki að bæta upp forföll nemenda né eigin veikindadaga, eða ef upp koma önnur atvik í skólastarfinu sem raska reglubundinni kennslu t.d. námskeið, starfsemi grunnskóla og leikskóla eða ef kennsla fellur niður vegna veðurs.
Breytingar á námstilhögun nemenda eru aðeins leyfðar við upphaf skólaárs og um áramót og skal tilkynna slíkt skriflega með tölvupósti á te@krummi.is. Ekki er endurgreitt hlutfallslega af skólagjaldi vegna kennslustunda sem falla niður vegna veikinda kennara eða raskana í skólastarfi. Ef um langtíma veikindi kennara, 2 vikur eða lengur, er að ræða fá nemendur úthlutað afleysingakennara eða skólagjöld eru endurgreidd í hlutfalli við þá tíma sem hafa fallið niður.

Óveður/Ófærð
Ef grunnskóli fellir niður kennslu vegna óveðurs/ófærðar gildir það sama um Tónlistarskólann. 
Ef kennsla er ekki felld niður, en veður er slæmt, er það ákvörðun foreldra/forráðamanna hvort nemandi mætir eða ekki í Tónlistarskólann. Þó þarf að tilkynna forföll í Speed Admin eða hringja í Tónlistarskólann eða senda tölvupóst á te@krummi.is.
Ef kennsla er ekki felld niður í grunnskóla, en kennari kemst ekki til starfa vegna óveðurs/ófærðar, verður haft samband við alla hans nemendur.

Samvinna við aðra skóla
Samvinna er lykilatriði í öllu skólastarfi, órjúfanleg frá námi og kennslu.
Fjölþætt samvinna er fastur liður í innra starfi skóla en margvíslegt samstarf á sér jafnframt stað. Samvinna getur aukið fjölbreytni í starfi allra skóla og verið þeirra styrkur.
Tónlistarskólar, grunnskólar og leikskólar hafa mikilvæg sameiginleg markmið. Má þar nefna að markmið skólanna er að fræða, stuðla að þroska einstaklinga og veita nemendum tækifæri til að láta ljós sitt skína.
Allir nemendur grunnskóla aðildarsveitarfélaganna eiga þess kost á að sækja tónlistarnám í hljóðfæratímum á kennslutíma grunnskólanna. 

Nemendur í framhaldsskólum fá nám við Tónlistarskólann metið til eininga, bjóði viðkomandi framhaldsskóli upp á slíkt.
Nemendur í Tónlistarskóla Eyjafjarðar hafa kost á að taka þátt í hljómsveitarstarfi við Tónlistarskólann á Akureyri og metur hver kennari hvenær nemandi er tilbúinn til þess.

Tónlistarskóli Eyjafjarðar á góðu samstarfi við aðra tónlistarskóla á Norðurlandi, með skólaheimsóknum, sameiginlegum símenntunardögum, vinnustofum nemenda, sameiginlegum tónleikum o.fl.