Hin svokallaða strengjafjölskylda samanstendur af fiðlu, víólu, selló og kontrabassa. Fiðlan er með hæstu tónhæðina en kontrabassinn er stærstur og með dýpstu tónana. Víólan og sellóið eru þar á milli. Á öll hljóðfærin er leikið með boga sem hrosshár eru strengd í. Einnig er hægt að plokka strengina með fingrum.
Fiðla, víóla og selló hafa fjóra strengi og er fimmundartónbil á milli hvers strengs. Kontrabassinn hefur ýmist fjóra eða fimm strengi og er ferundartónbil á milli hvers strengs. Tónhæð er stjórnað með því að þrýsta á strengi  á fingrabrettinu með viðeigandi fingrum vinstri handar.
Gítar telst einnig til strengjafjölskyldunnar.

FIÐLA 
Fiðlan hefur hæstu tónana í strengjafjölskyldunni og er því mest áberandi í samspili. Hlutverk fiðlunnar er oftast að leika laglínur (sópran).  Haldið er á fiðlunni á viðbeini og öxl vinstra megin með höku á hökubretti sem er fest á fiðluna. Axlarpúði er festur neðan á og hvílir hann á öxlinni.

VÍÓLA/LÁGFIÐLA
Tónhæð víólu er aðeins lægra en fiðlu. Hún sér um að leika milliraddir í samspili (allt). Víóla er samt fullgilt einleikshljóðfæri. Haldið er á víólu á sama hátt og fiðlu.                                                                                                                                                                             
SELLÓ/HNÉFIÐLA
Selló er með pinna sem dreginn er út úr því að neðan og tyllt á gólf. Sellóleikarinn situr með hljóðfærið í fanginu. Tónhæð sellósins er áttund neðar en víólu og er hlutverk þess í samspili að leika neðri millirödd eða bassalínu (tenór). Sellóið er fullgilt sem sólóhljóðfæri og er stundum sagt vera það hljóðfæri sem kemst hvað næst mannsröddinni. 

KONTRABASSI
Kontrabassinn er undirstöðuhljóðfæri í samleik, hvort sem er í ritmísku eða klassísku samspili. Frá honum koma dýpstu tónarnir í samhljómnum. Hægt er ýmist að standa eða sitja við kontrabassa. Þegar staðið er við hann verður mikil snerting við líkamann og hljóðfæraleikarinn fær hljóðbylgjurnar beint í líkamann sem er góð tilfinning.

Námstilhögun
Fullt nám er klukkustund á viku í einkakennslu sem til að byrja með er skipt í tvo hálftíma á viku. Hálft nám er hálftími á viku.
Tónfræði er kennd í hóptímum einu sinni í viku í 40 mínútur í senn. Gert er ráð fyrir að nemendur mæti í tónfræði frá og með 5. bekk. Til þess að taka fullgilt áfangapróf á hljóðfæri þarf að ljúka viðkomandi áfanga í tónfræði.
Strengjanemendum í Tónlistarskóla Eyjafjarðar býðst að sækja hljómsveitarstarf og Suzukihóptíma í Tónlistarskólanum á Akureyri. Á starfsstöðvum Tónlistarskóla Eyjafjarðar er reynt að halda úti samspili eins og kostur er þar sem 2-6 nemendur leika saman. Gott samstarf er á milli tónlistarskóla í Eyjafirði, Akureyri og Tröllaskaga. Annað hvert ár eru haldin landsmót strengjasveita og einnig fara strengjasveitirnar með reglulegu millibili til útlanda. Langt komnir strengjanemendur fá tækifæri til þess að leika með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. 

Hægt er að byrja að læra á strengjahljóðfæri frá 5 ára aldri samkvæmt Suzukiaðferð þar sem foreldrarnir taka þátt í náminu með nemandanum og koma í alla tíma með þeim fyrstu árin. Einnig er hægt að byrja að læra hvenær sem er á lífsleiðinni og hafa t.d fullorðnir nemendur náð góðum árangri. 
Tónlistarskólinn leigir nemendum hljóðfæri. Æskilegt er að nemendur eignist eigið hljóðfæri þegar þeir hafa náð fullum vexti.

Kennsluhættir
Kennt er samkvæmt hefðbundinni aðferð í einkatíma þar sem nemandi hittir kennara sinn 1-2 sinnum í viku. 
Suzukiaðferð/Móðurmálsaðferð er hægt að læra hjá kennurum með tilskilin réttindi. Þátttaka foreldra er nauðsynleg til þess að aðferðin gangi vel. Sjá nánar á suzukisamband.is.  Hún er afar hentug þar sem um unga nemendur niður í 5 ára er að ræða. Foreldri mætir í foreldrafræðslu, lærir undirstöðuatriði á hljóðfærið og fylgir nemandanum í tíma einu sinni í viku fyrstu árin. Foreldrið æfir heima með barninu og er nokkurs konar aðstoðarkennari.
Í Suzukiaðferð er notaðar upptökur sem nemandi hlustar á og lærir að leika eftir eyra í byrjun náms.  Einnig fylgja bækur með til stuðnings. Annað námsefni fer eftir áhugasviði nemenda og áherslum hvers kennara. Nauðsynlegt er að fylgja námskrá tónlistarskóla ef nemandi kýs að taka áfangapróf.
Afar mikilvægt er að nemandi fái stuðning frá forráðamönnum til þess að stunda hljóðfæraleik heim hjá sér. Gott er að nemandi hafi afdrep þar sem er nótnastatíf, stóll og rólegt umhverfi.
Skólaárinu er skipt í 4 lotur. Kennari og nemandi gera saman markmið í upphafi hverrar lotu og yfirfara í lokin. Þetta er gert í Speed Admin sem er gagnvirkt samskiptaapp. Kennari gerir námsmat í lok hverrar lotu og lokanámsmat í lok skólaárs. Námsmat byggir á símati á framförum, tímasókn, iðni (æfingar og vinna í tímum) og öðrum þeim þáttum sem kennari og nemandi hafa unnið með yfir skólaárið. 

Próf
Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla skiptist námið í þrjá megináfanga;
grunnnám, miðnám og framhaldsnám og lýkur með áfangaprófum í
hljóðfæraleik og tónfræðagreinum.
Gert er ráð fyrir að hver nemandi taki aðfarapróf í hverjum áfanga G1og G2 í grunnnámi. M1 og M2 í miðnámi og í F1 og F2 í framhaldsstigi. Það er val nemenda og kennara hverju sinni að sleppa öðru aðfaraprófinu í hverjum áfanga telji kennari það henta námsframvindu nemandans. Námstími innan hvers áfanga er breytilegur og ræðst m.a. af aldri, þroska, ástundun, stuðningi heimilis,  framförum og námsyfirferð.
Áfangapróf eru metin af sérþjálfuðum prófdómurum á vegum Prófanefndar
tónlistarskóla. Til þess að áfangapróf séu fullgild, þurfa nemendur að ljúka
viðeigandi námi í tónfræðagreinum á sama skólaári eða að hafa lokið því áður. 

Grunnnám
Hljóðfæranám
Tónfræðagreinar
Hljómsveitir/samspil 

Miðnám
Hljóðfæranám. Undanfari er Grunnpróf
Tónfræðagreinar
Hljómsveitir/samspil 

Framhaldsnám
Hljóðfæranám. Undanfari er Miðpróf. Tónfræðagreinum lokið með Miðprófi
Námi lýkur með framhaldsprófi og Burtfarartónleikum
Tónheyrn I og II
Hljómfræði I og II
Tónlistarsaga I – IV
Hljómsveitir/samspil