Söngnám hefur talsverða sérstöðu samanborið við hljóðfæranám. Hljóðfæri söngnemandans, röddin, er hverjum og einum gefin. Hún er hluti líkamans og einstök. Allir geta lært að syngja. Við eigum að geta framkvæmt öll hljóð sem við viljum á heilbrigðan hátt.

Í boði er að hefja fornám í söng frá 6 ára aldri til 12 ára. Nám í rytmiskum eða klassískum söng getur hafist við 13 ára aldur eða  þegar nemendur hafa náð líkamlegum þroska og raddir þeirra stöðugleika eftir breytingar gelgjuskeiðsins.  Raddþroski er þó mjög einstaklingsbundinn og meta verður hvern einstakling sérstaklega.


FORNÁM Í SÖNG
Fornám í söng er töluvert ólíkt öðru söng- og tónlistarnámi. Í fornáminu er lögð rík áhersla á framkomu, texta, túlkun og hópsöng. Möguleikar raddarinnar eru kannaðir í gegnum leik og fjölbreytt lagaval sem hæfir aldri og þroska hvers nemanda. Unnið er að því að ná tengslum við röddina sína og líkama í gegnum einfaldar öndunaræfingar. Unnið er með lög jafnt á textablöðum sem og nótum og söngurinn þjálfaður bæði með og án hljóðnema. Einnig er unnið með spuna og sköpun.

Námstilhögun
Boðið er upp á fullt nám, hálft nám, og 75% nám í sumum tilvikum.

  • Í fullu námi fá nemendur 60 mínútur á viku í einkatíma í söng, sem eftir aldri og hentugleik skiptast í 30 mínútur tvisvar sinnum í viku eða 60 mínútur einu sinni í viku.
  • Í hálfu námi fá nemendur 30 mínútur á viku í einkatíma í söng. Sá tími er þá tekinn í heild sinni á einum vikudegi.
  • Í 75% námi fá nemendur 30 mínútur á viku í einkatíma í söng, og 30 mínútur sem þeir deila með öðrum nemanda í 75% námi. Þetta námsfyrirkomulag krefst því þess að nemendur séu á svipuðum stað í náminu, og báðir í 75% námi.
  • Samsöngur er hluti af náminu fyrir alla nemendur og er kenndur einu sinni í viku í 40-60 mínútur. Tímarnir eru mjög mikilvægur hluti af náminu þar sem að þau þjálfast í að syngja saman og í að koma fram.
  • Mikilvægt er að nemendur sæki tónfræðitíma samhliða hljóðfæranáminu og að bóklegt nám fylgi hljóðfæranáminu til að hindra ekki framvindu þegar kemur að prófum. Nemendum er raðað í tónfræðihópa frá 5. bekk en geta fengið að fara í tónfræði fyrr ef þeir óska eða ef hljóðfærakennari telur þörf á því.

Skólaárið skiptist í 4 lotur; í upphafi hverrar lotu setur nemandi í samstarfi við kennara sér námsmarkmið fyrir lotuna. Í lok hverrar lotu er námsmat þar sem metin eru þau atriði sem unnið var með samkvæmt markmiðum. Í lok hvers skólaárs er lokanámsmat. Markmið eru endurskoðuð reglulega í hverri lotu og allt skólaárið. 
Eftir hverja lotu eru haldnir tónfundir. Tónfundur getur verið með foreldrum eða án foreldra. Ef nemandi er ekki tilbúin að taka þátt að þá má ljúka lotunni á annan hátt. Til dæmis með því að taka myndband af nemandanum syngja í tímanum og senda foreldrum. Enda er aðalmarkmiðið að öllum líði vel í náminu.

Kennsluhættir
Kennsluaðferðir eru fjölmargar, og miðast við þann einstakling/a sem unnið er með hverju sinni. Meginreglan er að nemendum líði vel í náminu, finnist það áhugavert og að það þjóni einhverjum tilgangi. Leitast er við að nemandinn verði sjálfstæður og sjálfbjarga og hafi kunnáttu og áræðni til að leysa verkefni og flytja og/eða skapa tónlist upp á eigin spýtur.  

Námsefni
Námsefni er fjölbreytt og miðast við áhugasvið nemandans. Í meginatriðum er notast við námsefni á netinu og fjölbreyttar nótnabækur. Einnig er notast við ýmis snjallforrit. 
Frumsköpun skipar einnig þátt í námsefninu, þar sem bæði nemandinn og kennarinn fá rými til að skapa eða útsetja eitthvað nýtt.

Snjallforrit sem nýtast í náminu
Ireal pro
Musilla
CVT 
Simply guitar
Simply piano
Sightsinging pro
Sightsinging studio
Garageband
Moises

Hægt að nálgast nótur á
Musescore
Musicnotes
Scribd
Gítarparty
tonmennt.is

Heimanám 
Tónlistarnám byggist að mestu leyti upp á heimanámi. Reynslan hefur ótvírætt sýnt að þeir nemendur sem æfa sig reglulega heima, setja æfingatíma inn í hversdagsrútínuna sína, upplifa miklu meiri ánægju og hamingju í tónlistarnáminu heldur en þeir sem gera það ekki. Allt sem við veitum athygli vex og dafnar, og stuðningur frá heimili skiptir öllu máli. 

Kennslustundirnar eru því til þess að fá upplýsingar, leiðbeiningar, innblástur, sköpun og endurgjöf. Nemandinn fer svo heim og æfir sig til að mæta undirbúinn í næsta tíma og halda vinnunni áfram. Á heimilinu þarf að vera aðstaða til æfinga, einhvers konar rými með friði og ró. Mælt er með að nemendur eigi kórmöppu fyrir nótur og textablöð ásamt nótnastatífi fyrir heimaæfingar.

Próf
Ekki eru tekin próf í fornámi í söng heldur stuðst við aðferðir í leiðsagnarnámi. Þar sem megin áhersla er lögð á ástundun, áhuga og hvort nemandi hafi náð settum markmiðum hverrar lotu.