Píanóið er ungt hljóðfæri, aðeins um 200 ára gamalt í þeirri mynd sem við þekkjum í dag sem kraftmikið hljóðfæri með hörpu úr stáli og málm strengjum.  Nútíma píanó byggir þó á aldalangri þróun annarra hljómborðshljóðfæra.
Á Íslandi voru píanó sjaldgæf í húsum landsmanna en í dag eru píanó í flestum skólum, samkomuhúsum, kirkjum og algeng á heimilum. Píanóið á sér mikla sögu sem einleiks- og samleikshljóðfæri. 

Námstilhögun
Í fullu námi fær nemandi 60 mínútna einkakennsla á viku.  Kennslan skiptist í 2 x 30 mínútna kennslustundir á fyrri stigum náms en færist oft yfir í 1 x 60 mínútur á viku þegar lengra líður á námið.  Einnig er hægt að vera í hálfu námi sem er 1 x 30 mínútur á viku.  Tónfræði er hluti af hljóðfæranáminu.
Í dag eru til rafmagnspíanó með þyngdum nótum sem hægt er að nýta til heimaæfinga þó píanó sé betri kostur. Nauðsynlegt er að nemendur hafi aðgang að hljóðfæri til æfinga heima við ásamt einhvers konar píanóstól sem hægt er að stilla í viðunandi hæð.  Í skólanum er hljóðfæraleiga og hægt að hafa samband við skólastjóra ef hljóðfæri vantar.

Kennsluaðferðir
Kennsluaðferðir eru fjölbreyttar og miðast við aldur og þroska hvers nemanda. Í píanónámi þarf að tileinka sér góða líkamsstöðu og það að leika á hljóðfærið á eðlilegan hátt með góðri ásláttartækni.  Algengir píanóskólar fyrir byrjendur eru Music for Little Mozarts, Piano Adventures og Píanóleikur eftir Björgvin Þ. Valdimarsson.

Heimaæfingar eru mikilvægur hluti af náminu og æskilegt er að æfa sig daglega.  Píanóið hefur þá sérstöðu að það geta fleiri spilað á sama hljóðfærið í einu, algengast er fjórhent eða sexhent.  Píanóið hentar einnig vel í samspili með öðrum hljóðfærum og söng.

Í skólanum er leiðsagnarnám.  Skólaárinu er skipt upp í 4 lotur.  Í upphafi hverrar lotu setur nemandi í samstarfi við kennara sér námsmarkmið fyrir lotuna.  Í lok hverrar lotu er námsmat þar sem metin eru þau atriði sem unnið var með samkvæmt markmiðum.  Í lok hvers skólaárs er lokanámsmat.

Próf
Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla skiptist námið í þrjá megináfanga; grunnnám, miðnám og framhaldsnám og lýkur með áfangaprófum í hljóðfæraleik og tónfræðagreinum.
Gjarnan eru tekin aðfarapróf í hverjum áfanga G1 og G2 í grunnnámi,  M1og M2 í miðnámi og í F1 og F2 í framhaldsstigi. Það er þó val nemenda og kennara hverju sinni hvort aðfaraprófin eru tekin. Námstími innan hvers áfanga er breytilegur og ræðst m.a. af aldri, þroska, ástundun, stuðningi heimilis og framförum.
Áfangapróf eru metin af sérþjálfuðum prófdómurum á vegum Prófanefndar tónlistarskóla. Til þess að áfangapróf séu fullgild þurfa nemendur að ljúka viðeigandi námi í tónfræðagreinum.

Grunnnám
Hljóðfæranám
Tónfræðagreinar
Hljómsveitir/samspil 

Miðnám
Hljóðfæranám 
Tónfræðagreinar
Hljómsveitir/Samspil 

Framhaldsnám
Hljóðfæranám
Námi lýkur með framhaldsprófi og framhaldstónleikum.
Tónheyrn I og II
Hljómfræði I og II
Tónlistarsaga I – IV
Hljómsveitir/samspil