Harmóníka er tiltölulega ungt hljóðfæri, en fyrsta gerð harmóníku leit dagsins ljós í Berlín árið 1820. Það hljóðfæri er þó töluvert frábrugðið þeim harmóníkum sem við þekkjum í dag, því það má segja að hljóðfærið hafi verið í stöðugri þróun allar götur síðan. Sú þróun og breytileiki hefur þann kost að við erum stöðugt að fá fullkomnari hljóðfæri, en einnig þá ókosti að í umferð eru margar gerðir af harmóníkum sem segja má að séu úreltar, eða uppfylli ekki þær kröfur sem harmóníkutónlist nútímans krefst af þeim. Því leggjum við upp úr því að nemendur við tónlistarskólann fái hljóðfæri við hæfi.

Allar harmóníkur eru byggðar upp á þremur megin íhlutum – hljómborð í hægri hönd, belgur og hljómborð í vinstri hönd. Gerðir harmóníku eru þó nokkrar, og eftirfarandi hljóðfæri eru í boði við skólann: Píanóharmóníka með hljómbassa, hnappaharmóníka með hljómbassa, hnappaharmóníka með tón- og hljómbassa, hnappaharmóníka með tónbassa. Allar hnappaharmóníkur eru með svokölluðu C gripi.

Námstilhögun
Boðið er upp á fullt nám, hálft nám, og 75% nám í sumum tilvikum.

  • Í fullu námi fá nemendur 60 mínútur á viku í einkatíma á harmóníku, sem eftir aldri og hentugleik skiptast í 30 mínútur tvisvar sinnum í viku eða 60 mínútur einu sinni í viku.
  • Í hálfu námi fá nemendur 30 mínútur á viku í einkatíma á harmóníku. Sá tími er þá tekinn í heild sinni á einum vikudegi.
  • Í 75% námi fá nemendur 30 mínútur á viku í einkatíma á harmóníku, og 30 mínútur sem þeir deila með öðrum nemanda í 75% námi. Þetta námsfyrirkomulag krefst því þess að nemendur séu á svipuðum stað í náminu, og báðir í 75% námi.

Samspil skipar stóran sess í harmóníkunáminu, og fá allir nemendur kost á því að taka þátt í samspili með öðrum nemendum tónlistarskólans, hvort sem þeir eru í fullu, hálfu eða 75% námi. 
Mikilvægt er að nemendur sæki tónfræðitíma samhliða hljóðfæranáminu og að bóklegt nám fylgi hljóðfæranáminu til að hindra ekki framvindu þegar kemur að prófum. Nemendum er raðað í tónfræðihópa frá 5. bekk en geta fengið að fara í tónfræði fyrr ef þeir óska eða ef hljóðfærakennari telur þörf á því.

Aldur við upphaf náms
Harmóníkunemendur eru á öllum aldri, allt frá 7 ára og upp úr. Hljóðfærið krefst þess að hljóðfæraleikarinn hafi ákveðna burði til að valda því að draga belginn út og inn, og því eru yngri nemendur yfirleitt ekki teknir inn í nám, þó undantekningar séu þar á.
Aldurstakmörk upp á við eru hinsvegar engin, og maður er aldrei of gamall til að byrja að læra.

Hljóðfæraleiga
Tónlistarskólinn hefur hljóðfæri til leigu sem henta byrjendum og fram að unglingsárum.

Kennsluhættir
Kennsluaðferðir eru fjölmargar, og miðast við þann einstakling/a sem unnið er með hverju sinni. Meginreglan er að nemandanum líði vel í náminu, finnist það áhugavert og að það þjóni einhverjum tilgangi. Leitast er við að nemandinn verði sjálfstæður og sjálfbjarga og hafi kunnáttu og áræðni til að leysa verkefni og flytja og/eða skapa tónlist upp á eigin spýtur.  

Námsefni
Námsefni er fjölbreytt, og miðast bæði við áhugasvið nemandans og hvers konar hljóðfæri hann er með í höndunum. Í meginatriðum er notast við nýtt námsefni frá Finnlandi og Danmörku, og fá nemendur ýmist námsefnið frá kennara eða eru beðnir að kaupa bók. Frumsköpun skipar einnig þátt í námsefninu, þar sem bæði nemandinn og kennarinn fá rými til að skapa eða útsetja eitthvað nýtt.

Heimanám og aðstaða
Tónlistarnám byggist að mestu leyti upp á heimanámi. Reynsla mín hefur ótvírætt sýnt að þeir nemendur sem æfa sig reglulega heima, setja æfingatíma inn í hversdagsrútínuna sína, upplifa miklu meiri ánægju og hamingju í tónlistarnáminu heldur en þeir sem gera það ekki. Allt sem við veitum athygli vex og dafnar, og stuðningur frá heimili skiptir öllu máli. 
Kennslustundirnar eru því til þess að fá upplýsingar, leiðbeiningar, innblástur, sköpun og endurgjöf. Nemandinn fer svo heim og æfir sig til að mæta undirbúinn í næsta tíma og halda vinnunni áfram.
Á heimilinu þarf að vera aðstaða til æfinga. Einhverskonar rými með friði og ró, þar sem er hentugur stóll í réttri hæð, og nótnastatív.

Námslotur
Skólaárið er byggt upp á fjórum lotum – tvær á haustönn og tvær á vorönn. Í upphafi hverrar lotu setjum við okkur markmið sem við vinnum að þangað til lotunni lýkur, og námsmat fyrir þá lotu er skráð inn á Speed Admin kerfið okkar. Í skólanum notum við leiðsagnarnám, og sköpum þannig grundvöll til samvinnu og samstarfs milli nemanda og kennara.

Próf
Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla skiptist námið í þrjá megináfanga; grunnnám, miðnám og framhaldsnám og lýkur með áfangaprófum í hljóðfæraleik og tónfræðagreinum.
Gert er ráð fyrir að hver nemandi taki aðfarapróf í hverjum áfanga G1og G2 í grunnnámi. M1 og M2 í miðnámi og í F1 og F2 í framhaldsstigi. Það er val nemenda og kennara hverju sinni að sleppa öðru aðfaraprófinu í hverjum áfanga telji kennari það henta námsframvindu nemandans.
Námstími innan hvers áfanga er breytilegur og ræðst m.a. af aldri, þroska, ástundun, stuðningi heimilis,  framförum og námsyfirferð.
Áfangapróf eru metin af sérþjálfuðum prófdómurum á vegum Prófanefndar tónlistarskóla. Til þess að áfangapróf séu fullgild, þurfa nemendur að ljúka viðeigandi námi í tónfræðagreinum á sama skólaári eða að hafa lokið því áður.

Grunnnám
Hljóðfæranám
Tónfræðagreinar
Samsöngur

Miðnám
Hljóðfæranám. Undanfari er Grunnpróf
Tónfræðagreinar
Samsöngur

Framhaldsnám
Hljóðfæranám. Undanfari er Miðpróf. Tónfræðagreinum lokið með Miðprófi
Námi lýkur með framhaldsprófi og Burtfarartónleikum
Samsöngur
Tónheyrn I og II
Hljómfræði I og II
Tónlistarsaga I – IV
Hljómsveitir/samspil