Rafbassinn er tiltölulega ungt hljóðfæri í tónlistarsögunni en hefur engu að síður fest sig rækilega í sessi og þykir ómissandi í fjölbreyttu úrvali nútímatónlistar á borð við djass, rokk, popp, R&B, kántrí og fönk.

Útlitslega séð er rafbassinn mjög skyldur rafgítarnum en það sem aðgreinir hann helst eru þykkir strengir, djúpir tónar, stærð hljóðfærisins, beiting notandans og síðan hlutverk hljóðfærisins í samspili. 

Djúpi og ríki tónninn sem bassinn framkallar virkar sem undirstoð sem önnur hljóma- og laglínuhljóðfæri leggjast ofan á, ásamt því að vera beintengdur við trommur og slagverk í rytmamyndun tónlistarinnar. Bassinn brúar því að miklu leyti bilið á milli rytma og hljóma/laglína. 

Algengt er að nemendur hafi lært á önnur hljóðfæri áður en þau byrji á bassa, sérstaklega ef þau byrja að læra mjög ung. Það var fyrst og fremst vegna stærðar hljóðfærisins en nú til dags eru í boði mjög góðir bassar sem eru hlutfallslega minni en framkalla samt sömu tóna. Það ætti því ekki að vera neitt til fyrirstöðu að byrja strax ef áhuginn er fyrir hendi. 

Kennsluaðferðir
Áhersla er lögð á áhugavekjandi og einstaklingsmiðaða kennslu með fjölbreyttum viðfangsefnum. Í byrjun bassanáms er lagt mikið upp úr því að grunnstoðirnar lærist vel þar sem góð beiting handa, líkamsstaða, hrynskynjun, heiti nótna og samhengi þeirra við lögin eru ómissandi þáttur í því að verða fær bassaleikari. Þessar grunnstoðir lærast best undir góðri handleiðslu kennara samhliða því að spila sem mest af lögum. Námsbækur og aðgengi nótna er ekki af skornum skammti þannig að það ætti að vera auðvelt að vinna eftir áhugasviði nemandans. Tónsmíðar eru einnig ómissandi hluti námsins þar sem nemendur nota þá þekkingu sem þeir hafa aflað sér og setja í nýjan og persónulegan búning með einföldum laglínum, bassalínum og hljómagöngum. Námið hefst með einföldum grunnótum og rytma í samspili við kennara og þróast svo yfir í að spila skala, brotna hljóma, flóknari hrynmynstrum og að búa til eigin bassalínur við hljómaganga. Einnig er mikilbægt að koma koma nemandanum sem fyrst í samspil með öðrum nemendum þar sem bassinn blómstrar í samspili með öðrum.

Námsmat
Í byrjun hverrar lotu gera kennari og nemandi markmiðasamning þar sem línur eru lagðar fyrir vinnu lotunnar, markmiðasamningurinn er í sífelldri vinnslu og endurskoðun á meðan á náminu stendur.
Í lok hverrar lotu fá allir nemendur skriflega umsögn frá sínum kennara og niðurstöður prófa eins og við á. Námsmat byggir á símati á framförum, tímasókn, iðni (æfingar og vinna í tímum) og öðrum þeim þáttum sem kennari og nemandi hafa unnið með. Í lok vetrar er síðan lokanámsmat þar sem allir þættir vetrarins yfir allar loturnar eru skoðaðir og metnir.

Próf
Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla skiptist námið í þrjá megináfanga; grunnnám, miðnám og framhaldsnám og lýkur með áfangaprófum í hljóðfæraleik og tónfræðagreinum.
Gert er ráð fyrir að hver nemandi taki aðfarapróf í hverjum áfanga G1og G2 í grunnnámi. M1 og M2 í miðnámi og í F1 og F2 í framhaldsstigi. Það er val nemenda og kennara hverju sinni að sleppa öðru aðfaraprófinu í hverjum áfanga telji kennari það henta námsframvindu nemandans.
Námstími innan hvers áfanga er breytilegur og ræðst m.a. af aldri, þroska, ástundun, stuðningi heimilis,  framförum og námsyfirferð.
Áfangapróf eru metin af sérþjálfuðum prófdómurum á vegum Prófanefndar tónlistarskóla. Til þess að áfangapróf séu fullgild, þurfa nemendur að ljúka viðeigandi námi í tónfræðagreinum á sama skólaári eða að hafa lokið því áður.

Grunnnám:
Hljóðfæranám
Tónfræðagreinar
Hljómsveitir/samspil 

Miðnám:
Hljóðfæranám. Undanfari er Grunnpróf
Tónfræðagreinar
Hljómsveitir/samspil 

Framhaldsnám:
Hljóðfæranám. Undanfari er Miðpróf. Tónfræðagreinum lokið með Miðprófi
Námi lýkur með framhaldsprófi og Burtfarartónleikum
Tónheyrn I og II
Hljómfræði I og II
Tónlistarsaga I – IV
Hljómsveitir/samspil