Gítarinn er fjölhæft og vinsælt hljóðfæri sem hefur fangað huga iðkenda og hlustenda í gegn um aldirnar. Blæbrigði tóna og fjölbreytni tjáningar hefur gert gítarinn að grunnstoð ýmissa tónlistarstefna, allt frá klassískum tónsmíðum yfir í rafmögnuð gítarsóló, og má segja að heilar tónlistarstefnur hafi orðið til fyrir tilvist gítarins. 

Aðalnámskrá flokkar gítarnám í tvo flokka: Klassískan gítar og rafgítar.

Klassískur gítar

Klassískur gítar á sér ríka sögu sem liggur djúpt í klassísku tónlistarsögunni og hennar stefnum og hefðum. Gítarinn er með breiðan gítarháls, holur að innan með hljóðopi á búknum og er strengdur með nælon-strengjum sem einkennast af hlýjum og mjúkum tóni. Gítarinn einkennist af fingraplokki annarar handar sem brýst fram sem fjölbreyttar og margslungnar laglínur og hljómar. Klassískir gítarnemendur spila tónlist úr klassískum tónbókmenntum á borð við Bach, Villa-Lobos og Tarrega í bland við hefðbundin dægurlög útsett fyrir hljóðfærið.  

Rafgítar

Rafgítarinn er heldur yngra hljóðfæri sem, þrátt fyrir ungan aldur, hefur sett óumdeilanlegt mark á tónlistarsöguna og má segja að heilar tónlistarstefnur hafi hreinlega sprottið út frá honum. Búkur rafgítarins er ekki holur eins og klassísku gítarinn og er tónninn framkallaður með því að tengja magnara við hljóðfærið. Með því að tengja hljóðfærið við magnara opnast fyrir víðan heim tónmeðhöndlunar líkt og rafgítarinn er þekktur fyrir. Allt frá tærum tónum til hámarks bjögunar. Þessir eiginleikar eru upplagðir til að spila nútímatónlistarstefnur af rytmísku tagi á borð við djass, blús, rokk og popp. Nemendur rafgítarins læra rytmískar tónbókmenntir sem kenna þeim sóló- og hljómaspilamennsku á borð við Jimi Hendrix, Eric Clapton, Jimmy Page. 

Kennsluaðferðir
Áhersla er lögð á áhugavekjandi og einstaklingsmiðaða kennslu með fjölbreyttum viðfangsefnum. Í byrjun gítarnáms eru klassískar tónbókmenntir í fyrirrúmi þar sem þær leggja góðan grunn en eftir því sem við á er gripið til verkefna úr rytmískum gítarbókmenntum. Tónsmíðar eru einnig ómissandi hluti námsins þar sem nemendur nota þá þekkingu sem þeir hafa aflað sér og setja í nýjan og persónulegan búning með einföldum laglínum og hljómagöngum. Námið hefst með einradda lögum við undirleik kennara sem þróast svo yfir í fjölradda einleik nemandans, hljómaspilamennsku með kennara og síðan samspili með öðrum.

Námsmat
Í byrjun hverrar lotu gera kennari og nemandi markmiðasamning þar sem línur eru lagðar fyrir vinnu lotunnar, markmiðasamningurinn er í sífelldri vinnslu og endurskoðun á meðan á náminu stendur.
Í lok hverrar lotu fá allir nemendur skriflega umsögn frá sínum kennara og niðurstöður prófa eins og við á. Námsmat byggir á símati á framförum, tímasókn, iðni (æfingar og vinna í tímum) og öðrum þeim þáttum sem kennari og nemandi hafa unnið með. Í lok vetrar er síðan lokanámsmat þar sem allir þættir vetrarins yfir allar loturnar eru skoðaðir og metnir.

Próf
Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla skiptist námið í þrjá megináfanga; grunnnám, miðnám og framhaldsnám og lýkur með áfangaprófum í hljóðfæraleik og tónfræðagreinum.
Gert er ráð fyrir að hver nemandi taki aðfarapróf í hverjum áfanga G1og G2 í grunnnámi. M1 og M2 í miðnámi og í F1 og F2 í framhaldsstigi. Það er val nemenda og kennara hverju sinni að sleppa öðru aðfaraprófinu í hverjum áfanga telji kennari það henta námsframvindu nemandans.
Námstími innan hvers áfanga er breytilegur og ræðst m.a. af aldri, þroska, ástundun, stuðningi heimilis,  framförum og námsyfirferð.
Áfangapróf eru metin af sérþjálfuðum prófdómurum á vegum Prófanefndar tónlistarskóla. Til þess að áfangapróf séu fullgild, þurfa nemendur að ljúka viðeigandi námi í tónfræðagreinum á sama skólaári eða að hafa lokið því áður.

Grunnnám:
Hljóðfæranám
Tónfræðagreinar
Hljómsveitir/samspil 

Miðnám:
Hljóðfæranám. Undanfari er Grunnpróf
Tónfræðagreinar
Hljómsveitir/samspil 

Framhaldsnám:
Hljóðfæranám. Undanfari er Miðpróf. Tónfræðagreinum lokið með Miðprófi
Námi lýkur með framhaldsprófi og Burtfarartónleikum
Tónheyrn I og II
Hljómfræði I og II
Tónlistarsaga I – IV
Hljómsveitir/samspil