Blokkflautan er stundum það tréblásturshljóðfæri sem ungir tónlistarnemendur kynnast fyrst og þá oft í forskóla eða tónmennt í grunnskóla en blokkflautan er alls ekki “bara byrjendahljóðfæri”. Hún er alvöru hljóðfæri sem á sér langa og merkilega sögu og fyrir hana hefur verið samið mjög mikið af allskonar stórkostlegri tónlist.
Í blokkflautufjölskyldunni eru sópranínó -, sópran-, alt-, tenór, og bassablokkflautur.
Flestir yngri byrjendur byrja að læra á Sópranblokkflautu en þegar líður á námið skiptir nemandinn yfir á Altblokkflautu eftir því sem líkamsstærð/handstærð nemandans leyfir.
Hægt er að fá ódýrar og vel brúklegar sópranbyrjendaflautur og allt upp í rándýrar handsmíðaðar tréflautur, því þarf það ekki að vera stór fjárfesting að hefja blokkflautunám. Ætlast er til að nemandi eigi sitt hljóðfæri sjálfur en hægt er að fá lánað hljóðfæri hjá Tónlistarskólanum og er ekki tekin hljóðfæraleiga fyrir það.

Kennsluaðferðir
Námið getur verið heilt nám (2×30 mín á viku), hálft nám (1×30 mín) eða 75% nám (1×30 mín einkatími og 1×30 mín hóptími á viku)
Strax í upphafi náms er lögð góð áhersla á að ná skýrum tóni og réttri líkams- og handstöðu. Tónn og líkamsstaða eru þjálfuð með allskonar skemmtilegum æfingum og leikjum. Nemandinn þjálfast í nótnalestri og að spila eftir eyranu, notast er við spjaldtölvur samhliða hefðbundnu námsefni. Nemandinn þjálfast í frumsköpun strax í upphafi náms og spilar eigin tónsmíðar í bland við verkefni sem hann sjálfur óskar eftir og verkefni sem kennari velur. Námsefni til að byrja með getur verið allskonar íslenskt efni eins og Flautað til leiks og Blokkflautuleikur eða norrænt kennsluefni eins og Blockflöjten och jag, horft er til þess að námsefnið sé nýtt og bæði æfingar og lög eitthvað sem nemandinn geti tengt við eigin áhugasvið. Þegar nemandinn hefur skipt yfir á Altflautu notum við t.d. íslenska námsefnið Ómblíða flautan fyrstu skrefin. Reynt er að láta nemendur fá þjálfun í samleik í bland við einleik og að nemandinn kynnist sem flestum hljóðfærum úr blokkflautufjölskyldunni. Mikilvægt er að nemendur sæki tónfræðitíma samhliða hljóðfæranáminu og að bóklegt nám fylgi hljóðfæranáminu til að hindra ekki framvindu þegar kemur að prófum. Nemendum er raðað í tónfræðihópa frá 5. bekk en geta fengið að fara í tónfræði fyrr ef þeir óska eða ef hljóðfærakennari telur þörf á því. 

Gott er að huga að því að nemendur hafi gott næði til að æfa sig heima og þeim sýndur áhugi og hvatning við heimanámið. Reglulegar heimaæfingar auka ánægju nemandans á náminu og þar fer stór hluti þjálfunarinnar fram, í kennslustundinni sjálfri er leiðbeining og endurgjöf, upplýsingar og innblástur en heimaæfingar efla framfarirnar. Best er að æfa sem oftast frekar en sjaldan og lengi, í byrjun er gott að reyna að æfa í 10 mínútur flesta daga.

Námsmat
Tónlistarskóli Eyjafjarðar tileinkar sér aðferðir leiðsagnarnáms þar sem lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat þar sem  frammistöðumat, sjálfsmat og stöðugt alhliða námsmat spila saman. Skólaárið skiptist í 4 lotur; í upphafi hverrar lotu setur nemandi í samstarfi við kennara sér námsmarkmið fyrir lotuna. Í lok hverrar lotu er námsmat þar sem metin eru þau atriði sem unnið var með samkvæmt markmiðum. Í lok hvers skólaárs er lokanámsmat. Markmið eru endurskoðuð reglulega í hverri lotu og allt skólaárið.
Nemendur hafa því mikið um sitt nám að segja og er námið sniðið að nemandanum og áhugahvöt hans þegar kemur að kennsluaðferðum, námsefni, námsleiðum og námshraða.

Próf
Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla skiptist námið í þrjá megináfanga; grunnnám, miðnám og framhaldsnám og lýkur með áfangaprófum í hljóðfæraleik og tónfræðagreinum. Gert er ráð fyrir að hver nemandi taki aðfarapróf í hverjum áfanga G1og G2 í grunnnámi. M1 og M2 í miðnámi og í F1 og F2 í framhaldsstigi. Það er val nemenda og kennara hverju sinni að sleppa öðru aðfaraprófinu í hverjum áfanga telji kennari það henta námsframvindu nemandans. Námstími innan hvers áfanga er breytilegur og ræðst m.a. af aldri, þroska, ástundun, stuðningi heimilis,  framförum og námsyfirferð. 
Áfangapróf eru metin af sérþjálfuðum prófdómurum á vegum Prófanefndar tónlistarskóla. Til þess að áfangapróf séu fullgild, þurfa nemendur að ljúka viðeigandi námi í tónfræðagreinum á sama skólaári eða að hafa lokið því áður.

Grunnnám
Hljóðfæranám
Tónfræðagreinar
Samspil 

Miðnám
Hljóðfæranám. Undanfari er Grunnpróf
Tónfræðagreinar
Samspil 

Framhaldsnám
Hljóðfæranám. Undanfari er Miðpróf. Tónfræðagreinum lokið með Miðprófi
Námi lýkur með framhaldsprófi og Burtfarartónleikum
Tónheyrn I og II
Hljómfræði I og II
Tónlistarsaga I – IV
Samspil