Æfingar heima fyrir

Að ná árangri á hljóðfæri

Til að ná árangri á hljóðfæri eru til margar aðferðir og henta ekki öllum þær sömu. Það eru samt allir sammála um að upphitun í byrjun æfinga sé rétta leiðin til að ná árangri. Það sem er gert í upphitun er það sama og íþróttamennirnir gera; að hita upp vöðvana til að koma í veg fyrir vitlausa notkun þeirra. Sérstaklega á þetta við um blásturshljóðfæri og söng. T.d. eru notaðir vöðvar í andlitinu sem við notum dags daglega frekar lítið en þarf að spenna þegar spilað er á blásturshljóðfæri eins og t.d. trompet. Með því að hita upp og æfa reglulega, ekki of lítið og ekki of mikið, þá komum við líkamanum í rétt form og eftirleikurinn verður auðveldari. Það er misjafnt hvað kennarar óska eftir að nemendur æfi sig lengi í senn heima en allir eru sammála að best er að æfa á hverjum degi fyrir byrjendur 10 – 15 mínútur í senn og lengur þegar lengra er komið í náminu.

Munurinn á að æfa og spila

Mjög margir nemendur æfa sig ekki rétt og nýta tímann sem þeir nota til æfinga illa. Þó reglan sé sú að æfa á hverjum degi þá er þetta alltaf spurning hvernig á að æfa sig. Hér fyrir neðan eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga þegar æft er á hljóðfæri.

1. Upphitun.
Mjög þýðingarmikið að hitað sé alltaf upp fyrir æfingar samkvæmt tilllögum kennara. Á blásturshljóðfærin t.d. langir tónar, bindiæfingar, tunguæfingar og öndunaræfingar.

2. Spila verkefnin (lögin) og hlusta vel.

3. Finna út hvar erfiðleikarnir liggja.

4. Æfa þá staði sérstaklega þar sem erfiðleikarnir eru.

5. Spila hægar en venjulega.

6. Æfa verkin í litlum köflum (ekki spila allt verkið í einu).

7. Spila verkefnin alveg í gegn þegar að búið er að yfirstíga helstu erfiðleika.

8. Þolinmæði. Þetta hefst ekki öðruvísi.

 

Hlutverk kennara og foreldra

Kennarinn og foreldrið skipa veigamiklu hlutverki í æfingum nemenda. Kennarinn kennir nemandanum að hjálpa sér sjálfur, hvernig á að æfa sig, hvaða fingrasetningar á að nota, hvernig á að lesa takt, tákn og nótur svo eithvað sé nefnt. Hlutverk foreldra er að hjálpa nemandanum að skipuleggja sig, hvetja og sýna námin barnanna áhuga. Að minnsta kosti 60% af náminu er í höndum nemandans í gegnum æfingar heima fyrir.